Uppbygging … er næsta skrefið
Ísland getur átt ágæta framtíð, með góðum lífsgæðum eins og voru hér á síðustu áratugum.
En Íslendingar geta líka klúðrað sínum málum að miklu leiti til langs tíma, í áratugi, þar sem ekki nást aftur þau lífsgæði, en í staðinn verði meiri fátækt, atvinnuleysi, þungt sinni.
Það sem skilur á milli þessa byggir ekki aðeins á tilviljunum sem ekki er hægt að höndla, heldur að stóru leiti á því hvernig Íslendingar munu beita sér í framtíðinni. Þeir geta klúðrað sínum málum án þess að átta sig nógu vel á hvernig. Þeir munu aðeins vita að þeim gengur ekki eins vel og áður.
Tilgangurinn með þess riti er að benda á atriði á opinn og jákvæðan hátt, sem gætu leitt til þess að betur muni ganga að þoka þessu blessaða landi upp á við. Til að byggja þetta land uppá nýtt, þá sérstaklega að vinna á atvinnuleysi með því að skapa ný störf sem er geysi mikilvægt, eftir það sem gerðist hér á síðustu árum, þarf að huga að mjög mörgu. Hér verður talað um nokkra þætti varðandi það að finna og rækta ný tækifæri, sem eigi að skila af sér alvöru verðmætum. Þetta er fyrir þá (þær) sem hafa áhuga á að spá í hlutina og kannski sjá nýjar hliðar á málum. Hér koma fram atriði sem eru frekar hrein og bein, þegar þú sérð það. Þetta eru ekki bara slagorð eða sykursæt „jákvæðni“. Þetta er kannski einskonar fjársjóðsuppdráttur. Þetta rit klárar það ekki allt, og það er fínt ef aðrir geta
komið með uppbyggilegar uppástungur á öðrum sviðum, frá öðrum sjónarhól.
Lykilatriði í þessu jákvæðniriti hér er eftirfarandi: Íslendingar þurfa að beita sér meira að því að leita að, finna og þróa verðmæt, ný tækifæri af mörgum toga. Þeir þurfa að leggja meiri kraft í að beita eigin hyggjuviti og sköpunargáfu til langs tíma. Þeir þurfa að reyna að fara að beina huganum frá svekkelsi og reiði. Ef þeir gera það ekki mun samfélagið eiga mun erfiðara með að komast upp á ný. Stærsta áfallið væri ekki bankahrunið, heldur að ekki tækist að komast á flug aftur.
Ef þú lest ekki þennan pappír til enda en ert spurð/ur hvert sé lykilatriðið, þá er það þetta.
Þetta er algjört grundvallaratriði.
Setja meiri orku í að finna og þróa tækifæri af ýmsum toga. Minni orku í svekkelsi og neikvæðni. Hugurinn ber þig hálfa leið.
Þessi skrif hér ganga út á að skýra tæknilegar hliðar á þessu. Lesandinn hefur reynslu af mjög stóru verkefni í þróun tækifæris sem er innblástur að þessum athugunum. Meira um það síðar.
Lesandinn má gjarnan benda öðrum á, sem gætu viljað velta vöngum yfir þessu efni. Það er aldrei að vita hvernig það þróast. Vegir tilverunnar eru órannsakanlegir fyrirfram, og að hluta eftir á. Það eina sem maður getur gert er að kasta færinu út í fljót lífsins, og vona það besta.
Losum úr viðjum
Hér hefur verið fremur neikvætt andrúmsloft frá hausti 2008. Það er vægt til orða tekið.
Sjáum fyrir okkur borg, þar sem bankarnir hafa verið sprengdir, og byggingarnar sem hýstu þessar fjármálastofnanir eru hrundar til grunna að mestu…
Nei, hér er ekki að talað um Reykjavík eftir bankahrun, eftir síðustu uppþot sem hafa farið úr böndum, því í þessari borg eru líka dómkirkjur og verslanagötur hrundar, ásamt stjórnarbyggingum, og heilu íbúðahverfin í rúst. Atvinnulíf lamað að stærstum hluta. Hvaða borg er þetta? Þetta eru margar borgir… London. Manchester. Liverpool. Birmingham. Düsseldorf. Dresden. Hamborg. Tíminn er í lok síðari heimsstyrjaldar.
Íslendingar hafa haft það býsna gott á síðustu áratugum. Hrun bankanna og efnahagsþrengingar eru kannski fyrstu alvöru þrengingarnar sem þjóðin verður fyrir eftir lýðveldisstofnun. Ekki er ætlunin að gera lítið úr núverandi vanda, hann er skrambi erfiður og meira fyrir suma en aðra. En þessi vandi er kannski minni en sumir aðrir hafa þurft að glíma við í sögunni? Hvað gerði þetta fólk í London, Birmingham, Manchester og víðar þar sem Luftwaffe hafði látið sprengjum rigna yfir árum saman? Og hvað gerðu íbúar Düsseldorf, Dresden, Hamborgar og víðar sem Royal Air Force hafði sprengt til grunna að stórum hluta? Þau hefðu getað eytt árum í að ásaka, gagnrýna, gagnásaka, mótmæla og svo framvegis. En þetta fólk fór, með erfiðismunum í fyrstu, í það að gera það eina sem hægt var að gera í stöðunni. Að byggja upp á ný. Þetta fólk var hins vegar vanara djöfulgangi stríðs gengum aldirnar en Íslendingar. Þetta þýddi ekki að þetta fólk gleymdi seinni heimsstyrjöldinni. Það voru og eru enn skrifaðar bækur og gerðar bíómyndir. Og kannski lærðu menn af styrjöldinni, sem leiddi til núverandi friðartíma. En það var ekki að velta sér upp úr þessu þannig að nýliðnar hörmungar tækju yfir stóran hluta athafna sinna, heldur reyndi að afgreiða málið og snúa sér að því að byggja upp samfélögin á ný, og gerði það býsna vel.
Undirritaður gerir ekki lítið úr vanda þeirra sem hafa lent illa í því hér, en getur verið að neikvæðni í umræðu, stanslaus gagnrýni og ásakanir, ný og ný atriði til að fordæma og rífa niður (beggja vegna víglínu), oft í bloggheimum sem geta verið ótrúleg lesning, hafi verið of mikill hluti af afstöðunni hér, og það aðeins of lengi? Þetta er þó að mörgu leiti skiljanlegt. Höfundur telur að það verði að finna lausn á því þar sem fólk keypti venjulegt húsnæði í góðri trú en lenti svo illa í því, þó það kosti jafnvel meira en að losa einn útrásarvíking úr snörunni. Annars mun þetta verða brotið samfélag í framtíðinni, og nauðsynlegt traust horfið. Fyrr eða síðar kemur að því að það er rétt að bretta upp ermar og finna leiðir út úr þessu og byggja upp. Atburðir síðustu þriggja ára eru hörmulegir og tjón margra mikið. En er þetta ekki eitt af því sem þarf að gera?
Eftir að hafa fylgst með fyrstu dómsmálum grunar undirritaðan að sum að sumt, en kannski ekki allt, af því sem aflaga fór á svokölluðum útrásarvíkingstíma, mál sem fólk vill fá uppgerð, vill fá refsingu, jafnvel drifið áfram af hefnd, muni aldrei verða gert upp að fullu. Jafnvel réttarhöld sem kannski koma í framhaldi af starfi sérstaks saksóknara. Höfundur er ekki tiltakanlega lögfróður, en grunar að lagatæknilegar flækjur, bókstafstrúuð smáatriði, verði notuð óspart til að reyna að bægja kærum burt frá dómi. En hvað ætla menn að gera þá? Halda áfram ásökunum, og slíku?
Miðað við andrúmsloftið og hvaða breytingar eru merkjanlegar (eða ekki) má ímynda sér að eftir þrjú ár til viðbótar muni margir verða við svipað heygarðshorn, eða dottnir niður í einhvern doða. Reiði er skiljanleg, og þessi mótmæli með tunnuslætti. Mótmælin eru jafnvel nauðsynleg til að hreyfa við ástandinu. En þegar slíkt er enn í gangi eftir þrjú ár er samfélagið ekki að þróast, það er fast, finnur ekki lausnir og tekst ekki að losa sig. Düsseldorf, Hamborg, London, Manchester. Íbúum þessara borga tókst að rísa upp á ný, ekki auðveldlega, en það tókst samt. Hvað með Reykjavík og Ísland? Stundum þarf líka að fyrirgefa og halda áfram. Best er þó að það sé undir þeim formerkjum að menn ætli að standa sig betur. Bretum og Þjóðverjum tókst að mestu dálítið, sem ekki hafði verið auðvelt á fyrri öldum. Það var að fyrirgefa og halda áfram. (Jafnvel Bretar og Frakkar, sem þeir kalla „froglegs“ gátu talað saman og gleymt Waterloo og Trafalgar). En hvað með Íslendinga. Geta þeir fyrirgefið? (Sem þýðir ekki að fólk sé búið að gleyma öllu og ætli ekki að læra af málinu). Fyrirgefning merkir ekki að gefið sé út skírteini sem segi að allt sem útrásarvíkingar og aðrir gerðu sé rétt, eða að þeir geti haldið áfram eins og þeim sýnist, heldur þýðir það að manneskjan losar sína sál úr þessum fjötrum biturleika sem eitra aftur og aftur. Með slíku frelsi getur jafnvel gengið betur að finna leiðir útúr vanda þegar maður hefur fyrirgefið og sér málin frá öðrum og hærri sjónarhól.
Á svokölluðum uppgangstíma útrásarvíkinganna töldu sumir að Íslendingar næðu framúrskarandi árangri vegna þess að þeir væru Íslendingar – að í því færi fólgin einhver innbyggður, mytólógískur kraftur. Svo hrundi allt, og eins gæti einhverjum þá dottið í hug að þetta hafi verið vegna þess að Íslendingar voru á ferð – að þeir bæru einfaldleg einhverja goðsagnakennda bölvun í sér. Það er þó ekki rétt. Ástæðan var einfaldlega sú (fyrir utan samdrátt í hinu alþjóðlega fjármálakerfi), þar sem hrunið var alvarlegra hér en annars staðar með himinháum fjárhæðum í hlutfalli við landsframleiðslu og að nánast allt bankakerfið hrundi til grunna (voru það ekki tveir eða þrír litlir sparisjóðir á landsbyggðinni sem stóðu eftir allt saman?), að Íslendingar hafa ekki beitt nógu góðum nálgunum við að meta og framkvæma. Lausnin á því hlýtur að vera sú að Íslendingar endurskoði sína aðferðafræði, sína nálgun við að skoða, meta og framkvæma, til að þróa fullkomnari aðferðarfræði. Það eru nefninlega aðferðirnar, nálgunin, sem gefur af sér árangurinn, ekki þjóðerni eða uppruni eða landfræðileg staðsetning eða athafnir sem forfeður manna dunduðu sér við fyrir þúsund árum. Það er ástæðan fyrir því að sumum þjóðum vegnar betur en Íslendingum, og svo eru aðrar þjóðir sem vegnar mun verr, á plánetunni Jörð. Þess vegna þurfa Íslendingar ekki að niðurlægja sjálfa sig þó að þessir þættir, nálgun og aðferðarfræði, séu skoðaðir, en þeir mega um leið sleppa því framvegis að upphefja sjálfa sig vegna þess að þeir séu Íslendingar, enda er á bakvið það ákveðin minnimáttarkennd að þurfa að upphefja sig. Það sem Íslendingar vilja auðvitað er að færast nær þeim þjóðum sem vegnar betur,til að byggja upp betra samfélag. Hvernig má fara að því?
Nú eru Íslendingar búnir að eyða þremur árum í að vera hálf lamaðir af fullkomlega skiljanlegri reiði. Við svona aðstæður er oft aðeins eitt að gera sem er rökrétt: Að horfast beint í augu við raunveruleikann og fara að ræða hvernig sé hægt að koma sér upp úr þessari stöðu.
Þekking eykur líkur á góðum árangri
Hér er spurning til að byrja með:
Hefur þú áhuga á golfi?
Hefur þú áhuga á að elda góðan mat og koma vinum á óvart með nýjum kræsingum?
Hefur þú áhuga á fótbolta eða handbolta?
Á fimleikum?
Á skák?
Undirrituðum sýnist að mjög stór hluti þjóðarinnar hafi áhuga á einhverju þessa, og þess vegna eru þessi áhugamál valin í örlítinn sambanburð hér.
Þeir sem hafa áhuga á golfi geta nálgast íþróttina á tilviljanakenndan hátt án þess að velta fyrir sér tæknilegum atriðum, sveiflunni, púttinu, golfgræjum og slíku. Þeir gera þetta bara einhvernveginn. Hins vegar geta þeir (þær) bætt árangurinn með því að spá einmitt í þetta, að æfa sig, æfa upphafshöggið, æfa púttið, ræða við sér hæfari, horfa á kennslumyndbönd og mót í sjónvarpi. Fáir sem hafa bætt sig í golfi munu móðgast þó að sagt sé, að þetta geti bætt árangur.
Eins er með áhugamenn í matargerð. Vissulega er hægt að elda með því að kaupa eitthvað sem virðist passa vel, sulla því saman í pott eða ofnskúffu, og bjóða svo upp á. En það má bæta árangurinn með því að spá í uppskriftum og matargerð. Margir lesa uppskriftir sér til ánægju og til að koma gestum á óvart. Fáir liprir kokkar munu fyrtast við þó sagt sé að með slíku megi bæta árangur. Nú ætti að vera ljóst hvað er verið að segja hér. Þess vegna þarf undirritaður ekki að skrifa langan texta um fótbolta, handbolta og fimleika. Þessar íþróttir er hægt að nálgast svona einhvern veginn, en með leikkerfi, leikskipulagi, tækni, þekkingu á upphitun, teygjum, stellingum og stöðu er hægt að ná betri árangri. Enginn áhugamaður um þessar íþróttir mun mótmæla því. Athugið að þjálfarinn og áhorfendur í boltaleikjum eru ekki alltaf að smjaðra fyrir leikmönnum. Það getur verið svakaleg harka sem fólk veit að það verður að þola. Það fylgir því að bæta sig.
Sama má segja um skák. Fáir ná árangri með því að nálgast þá hugarins íþrótt „bara einhvern veginn.“ Árangur næst með því að stúdera skákir, upphaf, miðtafl, endatafl…
Hugmyndirnar í þessu riti eru settar fram undir þeim formerkjum að það sé hægt að auka líkur á góðum árangri, með því að velta fyrir sér betri leiðum, afstöðu „leikskipulagi,“ kerfi og tækni, nálgun, eða hvað maður vill kalla það. Málið er þetta: Hvernig gekk hér síðustu átta ár? Það hefur komið best í ljós á síðustu rúmum þremur árum. Höfundur ætlar að leyfa lesandanum að taka eigin afstöðu til þess hvernig til hefur tekist. Vill lesandinn að betur takist til á næsta áratug?
Með því að skoða þetta er ef til vill hægt að auka líkurnar á góðum árangri. Það er það eina sem höfundur lofar. Með þessu er því sett fram byrjun á ákveðinni umræðu, um að breyta andrúmslofti, sem verður svo að koma í ljós hvernig þróast. Það eru litlar líkur á að hægt sé að bæta árangur ef menn halda áfram í sama anda og hefur einkennt þjóðlífið hér. Er ekki kominn tími til að skipta um gír? Er því ekki ómaksins vert að skoða það?
Snúum okkur að efni þessar rits.
Mögulegar grunn leiðir til að ná árangri
Skoðum fyrst allar hugsanlegar leiðir sem hægt er að ímynda sér til að ná árangri, til að skapa störf og tekjur og slíkt. Það má hugsa sér allavega átta grunn leiðir (mis góðar vissulega). Hver er raunhæfust?
- Íslendingar geta haldið áfram í þeim fasa sem þeir hafa verið undanfarin þrjú ár, þar sem stór hópur fólks stundar það af kappi að draga fram ýmis atriðið sem þeir telja að séu gagnrýniverð, oft í bloggum þar sem er stöðugur straumur af slíku. Þar eru hlutir gagnrýndir, fordæmdir, settar fram kröfur um þunga dóma, kröfur um að Hörpu tónlistarhúsi verið breytt í fangelsi, og hitt og þetta sem fólki dettur í hug. Það er skiljanlegt að Íslendingar séu í áfalli og ástæða til að hafa samúð með því, en þegar við svona aðstæður kemur auðvitað upp mótstaða, og stundum er niðurstaðan engin breyting, eða „status quo“. Gagnrýni, eins sjálfsögð og nauðsynleg og hún er, breytir litlu sem slík sem er útskýrt síðar, líkt og það að slétta fyrir húsgrunni leiðir ekki af sér að hús byggist upp af sjálfu sér. Einnig eru margir sem eru sem lamaðir og í doða. Höfundur telur að þetta ástand geti til frambúðar ekki leitt af sér betri stöðu mála.
- Íslendingar geta treyst á heppni, að eitthvað, óskilgreint, hljóti að koma til sem að „reddi hlutunum.“ Höfundur telur að heppni hafi verið stór þáttur í velgengnissögu íslensku þjóðarinnar á síðustu öld. Kannski hafa einhverjir þetta á tilfinningunni og finnst (það er að vísu ekki í neinni opinberri umræðu), að svipað hljóti að halda áfram? „Þetta hlýtur að reddast, það hefur gengið svo vel í heilan mannsaldur.“ Undirritaður er á þeirri skoðun að ekki sé hægt að treysta á heppnina, ekki frekar en í happdrætti. Íslendingar voru heppnir á síðustu öld, en ekki sérlega heppnir næstu ca 700 ár þar á undan.
- Hægt er að fara í hagræðingu og niðurskurð til að koma tekju og kostnaðarhlutfalli í betra horf. Er hægt að hagræða og skera niður meira? Kannski. En það skapar kannski ekki mörg ný störf? Kallar e.t.v. frekar á uppsagnir. Hér á ekki að útiloka, en höfundur kemur ekki auga á mörg tækifæri, hefur að vísu ekki lagt mikla vinnu í að finna slíkt. Kannski aðrir geti séð hagræðingartækifæri? (Sá sem leggur til niðurskurð sem þýði að einhver missi vinnuna, ætti sjálfur að vera tilbúinn að missa sína vinnu með sama hætti. Væri það ekki sanngjarnt?)
- Flest allt á Íslandi er í raun þróað erlendis, tækninýjungar og annað. Geta Íslendingar treyst á að einhverjar nýjungar komi fram erlendis sem akkúrat passi Íslendingum og opni ný tækifæri, sem að vegi þyngra en samskonar tækifæri hjá erlendum þjóðum? Það hefur svosem gerst, og á eflaust eftir að gerast, en spurningin er hvenær? Gerist slíkt innan ásættanlegs tíma? Verður það á nógu stórum skala til að skipta verulegu máli í að koma hlutum í rétt horf?
- Íslendingar getur dreymt um að hingað komi erlendir fjárfestar, sem hafi það megin markmið að gera Íslendinga ríka, og hafi sjálfir grunn nálgun og markmið sem henti fullkomlega Íslendingum. Er hægt að búast við því? Er það öruggt? Höfundur er ekki viss um það.
- Er raunhæft að fá erlend lán, eins og á útrásartímanum, til að knýja aflvél efnahagslífsins? Varla…
- Hins vegar er mikið fjármagn í bankakerfinu hérlendis, sem er sagt að „sé ekki í vinnu.“ Gæti verið raunhæft að finna leið til að nota það, til að setja af stað nýja starfsemi hér? Það skiptir þá máli hvernig það er gert.
- Þá er komið að áttundu grunn leiðinni, og hún er þessi: Að Íslendingar fari í það að leita að og þróa sjálfir nýjungar, og setja af stað verðmæta starfsemi. Með öðrum orðum, að líta kringum sig, fylgja eigin eðlisávísun og skapandi getu, skoða, leita, og þróa. Einnig kallað nýsköpun. Þetta mætti/þyrfti að gerast á mörgum sviðum, sem viðkomandi hefur möguleika á, gegnum þekkingu eða vegna þess að viðkomandi getur aflað sér þekkingar. Það skyldi þó enginn halda að það sé auðvelt. Það er ekki hægt að lofa gulli og grænum skógum. Það skyldi heldur enginn halda að það sé tryggt að það sé fljótlegt, þó svo geti vissulega verið í sumum tilvikum. Þetta þarf að gera af fullri virðingu við raunverulegar staðreyndir og heilbrigða skynsemi, heiðarlega, en ekki verða einhver „steypa“ eða froðubull sem lognast útaf með slóð af kostnaði, brostnum vonum og sviknum loforðum í eftirdragi. En ef þetta er gert rétt, sýnist undirrituðum að hér sé ein af fáum raunhæfum nálgunum til að koma þessu landi á rétta braut á ný. Hyggjuvit, sköpunarafl Íslendinga sjálfra. Það er nefnilega ótrúlegt sem hægt er að ná fram með frumleika og sköpunarkrafti, þegar ástundun og heiðarlegum vinnubrögðum er bætt við. Mörg dæmi eru um slíkt hér. Oft er gaman, jafnvel töfrandi á sinn hátt, að sjá hluti sem fólk er að gera á þessu sviði. „Hvernig datt þeim þetta í hug? Hvar náði viðkomandi í þekkingu til að gera þetta og láta það ganga upp?“ Margt stórt hefur byrjað smátt, en ekki hefur allt sem byrjaði smátt endað sem stórt. Hve víða leynast svona ónýtt tækifæri, hugmyndir sem hafa ekki verið skoðaðar og þróaðar, sem mætti draga fram og gera að veruleika með því að beita réttu hugarfari og aðferðum?
Þessi síðasti liður er sú nálgun sem er til umfjöllunar hér. Er hægt að nálgast þessi mál á þann hátt, að það auki líkurnar á æskilegum árangri.
Er hægt að stilla upp leikkerfi, leikskipulagi sem gerir öllum kleift að hafa aðeins skýrari mynd af leikvellinum, og jafnframt að vinna á markvissari hátt? Færa hugarfar uppá við?
Grunnurinn að verðmætum nýjungum
Líttu í kringum þig þar sem þú situr núna. Hvað sérðu? Líklega tölvu, borð, stóla, loftljós, glugga, bækur, ýmislegt. Allt er þetta gert af mönnum, en áður en það gerðist þá byrjaði þetta allt sem hugdetta, eða að einhver (í eintölu eða fleirtölu) áttaði sig á að hægt væri að gera betur. Það kom það sem í léttum dúr má kalla „Hei, kannski væri hægt að…“-augnablik. Bókstaflega allt sem þú sérð sem tilheyrir ekki náttúrunni, allt í manngerðum heimi, byrjaði á þessu: „Hei, kannski væri hægt að gera svona og svona…“ Svo var sú hugdetta þróuð áfram, og loks gerð að veruleika.
Það skiptir ekki máli hvort þú ert að tala um þróun á nýrri og mun fullkomnari gerð af tinnusteinsáhöldum, með því að nota meitil úr hjartarhorni ásamt slagsteini – tækninýjung sem markaði upphaf efri-fornsteinaldar hjá forfeðrum okkar fyrir um 25.000 árum, eða aðferðir við að senda upp geimför, eða nanótækni. Allt byrjaði á „Hei! Kannski væri hægt að….“ Þetta er töfra augnablik.
Líttu aftur í kringum þig, á tölvu, borð, stóla, loftljós, glugga, bækur, ýmislegt. Spurðu þig hve mikið af þessu var hugsað upp, beinlínis fundið upp á Íslandi? Mestu líkindin eru þau að afar lítið af því sem þú sérð hafi verið hugsað upp hér, hvort sem er hlutirnir sjálfir eða íhlutir, hráefni, grunn tækni. Megin ástæða þessa er einfaldlega fámenni þjóðarinnar og þar með míkró-smæð heimamarkaðsins. Það gerir að verkum að ýmsar tækninýjungar er einfaldlega ekki hægt að þróa hér með heimamarkað að bakhjarli. Það er verkefni stórþjóða. Tugmilljónaþjóða. Það er engin ástæða til að skammast sín fyrir það. Íslendingum hefur þrátt fyrir það gengið nokkuð vel í það heila síðustu áratugi.
Þetta leiðir hins vegar, skiljanlega, af sér að sú aðgerð að hugsa upp nýjung, að þróa upp nýjung, af þessu tagi, er eitthvað sem Íslendingar hafa ekki sérlega mikla reynslu af. Það er hvorki samkvæmt eigin reynslu, eða hafa fylgst með slíku. Það er staðreynd að flest það sem líf og lífsstíll er byggður á hérlendis er komið erlendis frá, en ekki hugsað upp hérlendis. Aftur, ekkert til að skammast sín fyrir, en aðstæður nú kalla hinsvegar á að Íslendingar verði sleipari á þessu sviði, bæði þau sem standa í slíku, og líka þau sem horfa á. Það er ákveðinn megin punktur í þessu riti.
Og nú er komið að því að skoða það ferli sem á sér stað í sköpun vermætra nýjunga, til að skilja betur ákveðna þætti í því.
„Boðhlaupið“ eða 1-2-3-4 ferlið
Hvernig gerist þróun verðmætra nýjunga? Ein leið til að skoða
Hér er leið til að skoða og skilja þróun verðmætra nýjunga. Það er fróðlegt, en ekki endilega án óþæginda, að skoða það í samhengi við íslensku þjóðina. Það þarf þó ekki að vera óþægilegt eða niðurlægjandi ef það er gert á réttan hátt. Þvert á móti, frelsandi og gefur heilbrigðara sjálfstraust, í samanburði við falskt sjálfstraust útrásartímans. Ef hlutirnir eru skoðaðir nákvæmlega eins og þeir eru, án persónulegra fordæminga, þá eru þeir yfirleitt þægilegri en maður hefði haldið.
„Boðhlaupið“
Þróun verðmætra nýjunga (raunar allra nýjunga) fer eftir ferli sem má líkja við boðhlaup, eins og keppt er í, í frjálsum íþróttum. Þar hleypur fyrsti hlauparinn af stað og afhendir svo keflið hlaupara númer tvö, sem hleypur og lætur svo í hendur hlaupara númer þrjú, sem hleypur sína vegalengd og afhendir loks keflið fjórða aðilanum sem svo hleypur áfram. Hver áfangi hlaupsins einkennist af ákveðnu verkefni, eða hlutverki, og þau eru í eðli sínu mjög ólík. Þau fara ekki öll fram á sama tíma. „Hlaupararnir“ í þessari tegund „boðhlaups“ hafa því ekki endilega sömu styrkleika eða veikleika.
Fyrsti áfangi í boðhlaupinu
Fyrsti áfangi „boðhlaupsins“ byrjar alltaf á því sem lýst var hér á undan, að manneskja segir við sjálfa sig „hei, kannski væri hægt að….“ eða „kannski væri sniðugt að…“ Þetta byrjar á litlum hugarneista, og það er eitthvað í umhverfinu sem leiðir af sér uppgötvun, nýja aðferð, afurð, hagræðingu, þjónustu eða slíkt. Kannski er viðkomandi að leita skipulega, kannski kemur það sem tilviljun. Stundum verður ekkert meira úr hugmyndinni. En ef málið heldur áfram þá fer viðkomandi (einn eða fleiri) að velta fyrir sér útfærslum. „Væri hægt að gera þetta svona eða svona eða svona.“ Þetta getur haldið áfram í langan eða skamman tíma. Ef niðurstaðan af því er góð, og viðkomandi telur það hagfellt, er röðin komin að því að kynna þennan nýja möguleika fyrir þeim sem gætu tekið ákvörðun um að framkvæma. Það er í reynd síðasti hlutinn af fyrsta áfanganum. Fólk í fyrsta áfanga eru spekúlantar, frumlegt fólk, sem er stundum áberandi og stundum ekki. Þetta fólk er ekki endilega í háum stöðum, valdamikið, ríkt eða slíkt. Þeir sem eru hér eru stundum taldir öðruvísi, og ófyrirséðir sem getur farið í taugarnar á íhaldssömum einstaklingum, þó víðsýni sé líklega að aukast. Ef þú ert að leita að traustum, jakkafataklæddum og fyrirsjáanlegum, virðulegum persónum er ekki víst að þú finnir þær hér. En þetta fólk kemur einfaldlega auga á möguleika þar sem aðrir sáu ekkert. Það hefur víðsýni, byltingarkennda hugsun á stundum og kemur fram með hinn hráa, nýja möguleika. Að halda áfram með hugmyndina getur svo kallað á umfangsmikla vinnu, og úr orðið mikil verðmæti. Hér skiptir máli frumkvæði, forvitni, og viljinn til að leiða fram eitthvað gott. Ef það er líka sæmilega skynsamt en ekki skýjaglópar geta áhugaverðir hlutir gerst. Mikilvægt er að þeir sem eru í fyrsta áfanganum eru frum höfundar þess boðhlaups, þeim dettur þetta í hug, búa keflið til og hlaupa svo af stað, ef svo má segja. Það er ekkert lögmál að fyrsti áfangi hljóti að fara af stað. Þetta er kreatífur atburður. Þetta sýnir grundvallar mikilvægi fyrsta áfangans, sem er vel viðurkennt hjá þjóðum sem eru ábyrgar fyrir stærstum hluta nýjunga sem orðið hafa til undanfarin ca 250 ár. Hér er sjálft upphaf forsendnanna fyrir öllum nýjum aðferðum við að skapa einhverskonar gæði.
Annar áfangi í boðhlaupinu
Með því að kynna þennan möguleika er keflið afhent þeim sem sjá um annan áfanga „boðhlaupsins.“ Í öðrum áfanganum er þessi nýi möguleiki skoðaður, og tekin er ákvörðun um hvort eigi að framkvæma þetta eða ekki. Þeir sem sjá um annan áfanga eru t.d. stjórnendur, stjórnmálamenn og sérfræðingar sem þeir kalla inn, sem eiga að hafa yfirsýn og tala við mikið af fólki. Einstaklingar hér þurfa gjarnan að hafa dómgreind í góðu jafnvægi, og þeir sjá oft yfir víðara svið en þeir einstaklingar sem eru í fyrsta áfanga boðhlaupins. Hér er semsagt gjarnan fólkið í „háum stöðum,“ sem er oft meira áberandi en þeir í fyrsta áfanganum. Það er alls ekki víst að tillaga um nýjung sem kemur fram í fyrsta áfanga verði að einhverju. Raunar er líklegt að meirihluti nýrra hugmynda fari hvergi. Hér skiptir máli hve vel hugmyndin er unnin. Kannski er rétti tíminn líka síðar. Það er vitað í iðnaði og þjónustu, að af 100 nýjum hugmyndum að vörum ná aðeins ca 10 á markað, aðeins þrjár skila einhverjum hagnaði, og aðeins ein til tvær skila nægilegum hagnaði til að borga fyrir allt saman. Það er því mikilvægt að þeir sem sjá um að „hlaupa“ annan áfanga „boðhlaupsins“ hafi trausta yfirsýn og taki skynsamlegar ákvarðanir. Ef ákvörðun er tekin um framkvæmd er öðrum áfanga lokið og keflið fer áfram til þriðja hluta „boðhlaupsins.“
Þriðji áfangi í boðhlaupinu
Þeir í öðrum áfanga ráða venjulega hver tekur við keflinu í þriðja áfanga, (það er hluti af ákvörðun í öðrum áfanga). Í þriðja áfanga fer fram undirbúningur og skipulagning á hvernig nákvæmlega þetta nýja mál verður framkvæmt og útfært. Hér eru sérfræðingar ýmiskonar og hagsmunatengt fólk kannski, sem þeir í öðrum hluta boðhlaupsins þekkja og treysta. Á meðan að hugmynd í fyrsta áfanga er stundum dálítið í skýjunum og óljós, er verkefnið hér að ákveða þetta nákvæmlega út frá aðstæðum, hagsmunaaðilum, tiltæku fjármagni o.s.frv. Þegar það er komið er keflið afhent fólkinu sem hefur verið valið til að hlaupa fjórða hluta boðhlaupsins.
Fjórði áfangi í boðhlaupinu
Keflið er komið í hendur þeirra sem sjá um fjórða áfangann, og hann gengur einfaldlega út á að framkvæma – að gera alvöru úr hugmyndinni sem læddist fram í hugskot einhvers í fyrsta áfanganum. Hér er verkefnið rekstur og viðhald. Fólkið hér er oftar en ekki valið af þeim í öðrum og þriðja áfanganum. Fjórði áfanginn stendur yfir eins lengi og rekstur eða starfræksla stendur yfir. Það getur verið stutt eða langt. Til dæmis hvað varðar nýjan veg, jarðgöng eða brú, þá eru þau starfrækt (fjórði áfanginn) eins lengi og þau standa uppi. Hvað brú varðar í nokkra áratugi, hvað veg eða jarðgöng varðar jafnvel í nokkrar aldir með eðlilegu viðhaldi.
Framúrskarandi velgengni byggir í stuttu máli á að allir þessir fjórir hlutar „boðhlaupsins“ og samstilling þeirra hafi heppnast vel. Við getum kallað það 1-2-3-4 ferlið. Allir eru í sjálfu sér jafn mikilvægir, og mál kemst ekki frá upphafi til enda án þeirra fjögurra. Það er alger fáviska að fara að raða í mikilvægisröð. Hins vegar getur það verið, að þeir sem eru í þriðja og fjórða hluta boðhlaupsins viti í raun lítið um þá eða þann sem sá um fyrsta hluta boðhlaupsins, jafnvel þó viðkomandi hafi átt hugdettuna og hafi þar með byrjað þetta allt saman. Í fyrsta, öðrum og þriðja áfanga boðhlaupsins er hægt að vega og endurmeta, og breyta ef þörf er á, fremur auðveldlega. Þegar komið er í fjórða hlutann, sjálfa framkvæmdina, eru hinsvegar komnar fastari skorður á allt, og kannski pikkfastar, þó það sé mismunandi.
Eins og sést gildir þetta einfalda módel fyrir hvaða svið atvinnulífs og opinberrar starfsemi sem er.
Svona ferli á sér stað bæði í þjóðfélagslegum framkvæmdum á vegum ríkis og sveitarfélaga, sem og í rekstri fyrirtækja með hagnaðarmarkmið hluthafa. Áherslur geta þó verið örlítið ólíkar. Fyrsti áfangi „boðhlaupsins“ getur verið í höndum fólks bæði innan og utan þeirrar stofnunar eða fyrirtækis sem við á í opinbera geiranum, en í tilviki fyrirtækjaumhverfis myndi fyrsti áfanginn oft fara fram innan fyrirtækisins sjálfs, t.d. hjá árvökulum starfsmönnum.
Þessir fjórir hlutar vísa ekki endilega á fjórar manneskjur eða hópa, heldur eru þetta fjögur hlutverk eða verkefni. Þó þetta virki stórt má sjá, að þetta ferli í fjórum hlutum á sér líka stað í smærri málum. Það gerist oft að ein manneskja sjái um alla fjóra hlutana, án þess að velta fyrir sér þessari formlega skilgreiningu. Ef vel er skoðað sést til dæmis að manneskja sem ákveður að fara í bíó (einföld aðgerð), hefur farið gegnum þetta ferli. Fyrsta hugdetta, skoðun möguleika, sett fram tillaga (við sjálfan sig), ákveða, undirbúa (taka til bíllykla og pening), og framkvæma. Mikið hefur verið skrafað og skrifað um nýsköpunarfræði, og ef vel er skoðað sést að þau snúast oft um fyrsta og annan hluta boðhlaupsins. Hvorugt gerir hitt ómerkt.
Þetta er nú einfalt!
Nú kann einhver að segja að þetta sé nú einfalt. Viðkomandi hefði getað sagt þetta sjálfur! Það er alveg rétt. Þetta eru ekki eldflaugavísindi hér. En að beina athyglinni að þessari uppstillingu er gagnlegt til að varpa ljósi á þætti, þar sem fólk getur bætt sig, hvar skóinn kreppir að. En það þarf ekki að vera mjög flókið í grunninn að snúa þessu í betri átt.
Þetta er til að varpa ljósi á þættina sem geta verið meðal hinna mikilvægustu varðandi það hvort þessi þjóð kemur sér á lappirnar. Ella gæti hún fests í verra ástandi en var hér á seinni hluta síðustu aldar – tíma sem gæti orðið þekktur sem gullöldin í sögu landans – „Paradise lost.“ Framtíðin er nefnilega engan veginn eins örugg eins og sumir vilja halda fram.
Taka má fram um stjórnmálamenn
Stundum kemur fram gagnrýni á stjórnmálamenn um að þeir komi ekki með nýjar og ferskar hugmyndir. Stjórnmálamenn tilheyra hluta 2 í þeim boðhlaupum sem snúa að opinberu umhverfi. (Æðstu stjórnendur fyrirtækja og þeir sem sitja í stjórn, stjórnarformaður t.d., sinna hluta 2 í fyrirtækjaumhverfi.) Það er kannski ekki sanngjarnt að krefja þá um nýjar hugmyndir, ný tækifæri, ferska hugsun, því að það er ekki hlutverk hluta 2 að koma með nýjar hugmyndir. Eðli þeirrar vinnu sem stjórnmálamenn vinna er allt annars eðlis. Þeir skoða hugmyndir og meta, tala við fólk, og ákveða. Undirritaður hefur talsverða reynslu af hluta 1 í ákveðnu boðhlaupi, og málið er, sem ekki allir átta sig á er að sú vinna að skapa tillögur að nýjum tækifærum kallar á sérstaka hugsun og vinnu, jafnvel mikla vinnu sem dreifist yfir mörg ár, sem er allt annars eðlis. Íhugun, leit að upplýsingum, stilla upp valkostum í hugmyndaformi. Þetta er ekki spurning um að fá einhverjar snöggar, auðveldar, flippaðar hugmyndir. Tillaga í fyrsta hluta boðhlaups þarf að spegla væntanlegan raunveruleika eins vel og nákvæmlega og hægt er. Ef stjórnmálamaður fer að þróa tillögu og nýjung, sem hann eða hún kann að vera fullfær um, er viðkomandi að hoppa yfir í hluta 1. Á þeim mínútum eða klukkustundum eða dögum sem stjórnmálamaðurinn er að rannsaka og þróa nýjung er hann ekki stjórnmálamaður, hann/hún er í fyrsta hluta boðhlaups sem viðkomandi er þá væntanlega að skapa og setja af stað. Svo getur viðkomandi hoppað aftur til baka í stjórnmálastarfið. Þetta er ekki sagt stjórnmálamönnum til hnjóðs, en vissulega eru sumir stjórnmálamenn ekki með það sem þarf til að hugsa vítt og þróa alveg nýja hugmynd. En það þarf ekki að vera verra, þeirra hlutverk er að standa sig vel í öðrum hluta. Stjórnmálamenn og stjórnendur þyrftu hins vegar, ef vel væri, að fá nýjar hugmyndir til að skoða, sem eru vel unnar, vel hugsaðar og rannsakaðar, og unnar af fólki sem þekkir „aksjónið“ á viðkomandi sviði. Ef stjórnmálamenn fá ekki jafnt streymi af nýjum tillögum fara þeir að koma með sömu hugmyndir aftur og aftur, til dæmis í atvinnumálum. Hefur einhver heyrt minnst á vegaframkvæmdir, veggöng, framkvæmdir með stórvirkum vélum, verktakaframkvæmdir? (Allt mjög karllægar hugmyndir.) Ágætar hugmyndir út af fyrir sig, en enginn ferskleiki eða greining á raunverulegum nýjum tækifærum, enda er það ekki hlutverk annars hluta að þróa slíkt. Hins vegar er ekki nóg að hugmyndaríkir einstaklingar varpi fram nýjum möguleikum, þeir/þær sem eru í öðrum hluta verða að skilja þennan mun og vera fær um að vega og meta ný tækifæri. Það er ekki öruggt fyrirfram að allir sem eru staðsettir í öðrum hluta séu færir um það. Það er verra ef svo er, og þeir í öðrum hluta halda að það sé þeirra hlutverk að skapa lausnirnar í grunninn auk þess að meta þær (nokkurs konar hálfguðir), og eru svo að loka á góð tækifæri en koma með úreltar lausnir aftur og aftur.
Svipað má kannski segja í atvinnulífi, þar sem margir athafnamenn eru fljótlega farnir að herma eftir öðrum, allir að fiska í sama polli, í stað þess að sækja fram á ný og ónumin svæði. En það er að vísu oft ekki svo vitlaus strategía að herma eftir, það skal tekið fram. En ef gert er of mikið af því verður krökkt af svipuðum hlutum á markaðnum. En er ekki hugmyndaleysið og skortur á skapandi og snjöllum nálgunum stundum ansi yfirþyrmandi?
Það er vel þekkt í framkvæmd „boðhlaups“ á hvaða sviði sem er að ekki eru allar ferðir til fjár. Kannski fæstar reyndar. Hlutir geta heppnast vel eða illa. Þess vegna er ómaksins virði að öðlast dýpri skilning svo sé líklegra að hlutir heppnist sæmilega. Það gæti bætt heildarniðurstöðu.
Hver er staðan á Íslandi?
Eins og áður sagði, ef þú lítur í kringum þig, þá má segja að frekar fátt hafi verið hugsað upp/fundið upp á landi elds og ísa, þar sem 300 þúsund sálir búa og iðka sína list. Mjög stór hluti af því sem hið góða líf (þrátt fyrir allt) á Íslandi byggir á er komið erlendis frá. Margt af því kemur hingað sjálfkrafa, og raunar engin hugsun um hvort eigi eða eigi ekki að taka það upp. Það þýðir að stór hluti þess sem þjóðfélagið byggir á byrjaði beint á hluta 4. Þetta er ekki slæmt svosem í grunninn, en það er ágætt að gera sér grein fyrir því. Margur innflutningur á tækni, aðferð, vöru eða hugmynd byrjar líka á öðrum hluta, þar sem lagt er mat á hvort eigi að raungera viðkomandi atriði hér.
Því er minna um það að farið hafi verið í alvöru gegnum hluta 1 í „boðhlaupi“ sem svo gekk áfram gegnum hluta tvö, þrjú og fjögur, heldur en í ýmsum öðrum vestrænum samfélögum.
Um leið var það niðurstaða hér á undan að það þurfi einmitt að setja stóraukinn kraft í að setja af stað fyrsta hluta „boðhlaupa“ – leita að og þróa verðmætar nýjungar, nýja starfsemi, nýjar tekjur, ný störf hér á landi. Um leið virðist sem að Íslendingar hafi minni reynslu af fyrsta hluta. Það er ákveðinn kraftmikill hópur sem hefur reynslu og skilning af þessu. Hér er ekki ætlunin að gera lítið úr þeim, alls ekki. En um leið eru margir sem hafa litla tilfinningu fyrir þessu ferli í praxis, og á því hvaða hlutverk eiga við og hvar, því viðkomandi hefur lítið velt því fyrir sér. Vonandi getur þetta rit aukið skilning fyrir einhverja sem vonandi lesa það (eða annað efni með svipuðu markmiði), sá er tilgangurinn. Í þessu ferli eru hugsanlega eitt af fáum fjöreggjum sem eru líklega til að geta skilað einhverjum árangri.
Hvar eru mótmælaraddir staðsettar?
Fáir myndu líklega mótmæla að kvartanir og mótmæli og gagnrýni hafi verið yfirgnæfandi áberandi á Íslandi á síðustu þremur árum. Ef glöggt er skoðað sést að allar þessar raddir má staðsetja sem hluta 2, það að skoða og meta. Ljóst er að dómurinn sem þessi hluti 2 kveður upp er ekki sérlega jákvæður. Raddirnar segja „við viljum ekki hafa þetta svona.“ Höfundur er ekki að segja að fólki sem mótmælir og gagnrýnir eigi að hætta því. Það verður að fá að halda því áfram ef það vill. En það er spurning um aðra, sem hafa ekki (lengur) áhuga á að taka þátt í mótmælum og fordæmingum, hvort þau geti haft áhuga á að þoka sér í að líta í kringum sig og leita að alvöru lausnum, sem eru jarðtengdar og virka, byggðar á staðreyndum en ekki áróðurskenndum upphrópunum? En það er rétt að benda á í fyllstu vinsemd og kurteisi að það að standa í hluta 2 endalaust skapar engar lausnir. Þar er aðeins lagt mat á, gagnrýnt, fordæmt, búsáhöld slegin, tunnur barðar… Grunnur að lausnum verður til í hluta 1, og það er svo á endanum í hluta 4 sem sjálf verðmætin verða til (þegar vel tekst til).
Þetta er spurning um jákvæða breytingu á andrúmslofti, að nógu stór hópur fólks hafi áhuga á að beita sér á annan hátt. Slíkt þróast Til að byrja með bólar kannski lítið á því, og jafnvel fær undirritaður einhverja pirrings gagnrýni fyrir þessi skrif hér? En svo getur það komið eins og hendi sé veifað að fólk sem vill byggja upp láti til sín taka. Þetta er ekki endilega sama fólkið og það fólk sem hefur mótmælt og fordæmt harðast (sem er í hluta 2 starfsemi). Þetta er fólk sem hefur kannski haft hægt um sig á síðustu árum. Er þetta ekki það sem þarf? Það er kjarninn í þessu riti hér.
Á bak við allt þetta, spurninguna um hver sé staðan á Íslandi í dag, er svo sjálf saga þjóðarinnar. Þetta eru spurningar á borð við af hverju varð Ísland ríkt? Af hverju gæti það orðið fátækt aftur? Hvað þarf að gera til að það nái aftur þeirri stöðu að lífskjör hér séu afburða góð (er það yfirhöfuð hægt?) Hafa Íslendingar nógu skýra mynd af sjálfum sér? Af hverju var útrásin framkvæmd, og gagnrýnd af flestum þeim sem á horfðu, sem hún var? Í Grikklandi til forna voru spákonur staðsettar á Delfí. Sínum hvoru megin við innganginn voru rituð heilræði, annað var „maður þekktu sjálfan þig“ (en hitt var „hóf er á öllu best“). Ekki verður farið nánar útí þessar pælingar hér, það er alveg nóg allt annað sem er hér.
Hvað skal leggja áherslu á í vinnubrögðum?
Ef Íslendingar vilja öðlast meiri styrk í „boðhlaupum“ er í ýmis horn að líta. Eftirtalin atriði eru líklega á meðal þeirra sem rétt er að skoða. Er það ekki flókið og tómt vesen? Því er til að svara að gera hlutina af kostgæfni tekur ekki svo miklu meiri tíma en að vaða í hlutina og vinna þá án nægrar umhugsunar. Þegar fram í sækir er það svo yfirleitt affarasælla að hafa vandað sig, sem sést til dæmis af því hvernig fór fyrir fjármálakerfinu sem a.m.k. höfundur telur að hafi farið svo vegna þess að vinnubrögð og afstaða hafi ekki verið í samræmi við það besta. Nú er það svo að sumir eru opnir fyrir svona pælingum, athugasemdum um vinnulag og slíkt, meðan að aðrir kæra sig ekki um slíkt og vilja gera hlutina „frá hjartanu.“ Þessar pælingar eru auðvitað fyrir þá fyrrnefndu sem höfundur vonar að séu sem flestir. Þau síðarnefndu mega gjarnan lesa einnig.
Hér verða settir fram punktar um þrjú hlutverk í þessu mengi.
- Fyrsti áfangi í „boðhlaupi.“
- Annar, en einnig þriðji og fjórði áfangi í „boðhlaupi.“
- Þau sem standa utan við „boðhlaupið“ en eru þó nærri, og geta haft áhrif til góðs eða ills.
Þeir sem fara af stað með fyrsta áfanga „boðhlaups“ mættu hafa þetta í huga:
1. Staðreyndir, staðreyndir, staðreyndir. Að leita að/þróa lausn merkir að leita að einhverju sem er í samhljóm við sannleikann, sem er raunverulegt og virkar. Þetta þýðir að æskilegt er að láta allar ályktanir og rök styðjast við staðreyndir. Því þarf oft að halda í gagnaleit og hætta ekki fyrr en örugg rök fyrir málinu eru í höfn. Lausnir og röksemdir sem styðjast við ýkjur, hálfsannleik og slíkt eru blekking og munu aldrei nokkurn tímann verða að lausn sem virkar í reynd. Það er ekki hægt að ljúga að raunveruleikanum. Hann virðir ekkert slíkt. Það er kannski hægt að ljúga til skamms tíma þegar menn ætla að ná skammtíma árangri, til dæmis að selja lélega pappíra eða vöru, en alvöru lausnir byggja á raunveruleika.
Grundvallaratriðið er þetta, leiðarljós fyrir sköpun nýjungar: Finndu út hver raunveruleikinn er og aðlagaðu hugmyndina að þeim. Notaðu skapandi hugsun, skoðaðu frá öllum hliðum, til að móta hugmyndina eftir staðreyndum. Reyndu ekki að sveigja og beygja raunveruleikann, og fullyrða að hann sé þannig, til að þóknast hugmyndinni, að ljúga því að aðstæður falli að hugmyndinni ef það er ekki rétt (höfundi finnst slík nálgun vera býsna algeng). Slíkt mun ekki endast lengi. Stundum er hægt að breyta raunveruleikanum til að henta hugmynd, en líklega er það oftast dýrt og erfitt.
2. Heilbrigð og jarðbundin skynsemi. Það þarf ekki að vera leiðinlegt, því það fylgir því ákveðin gerð af fullnægju að þróa mál sem stendur traustum fótum í tilverunni.
3. Eftir því sem hugmyndin/lausnin/röksemdirnar lenda í minni torfærum, eða andstöðu frá fólki eða vegna aðstæðna í umhverfinu, þeim mun meiri líkur eru á að málið nái í gegn. Ef málið rekst utan í einhvers staðar borgar sig að skoða og athuga hvort hægt sé að breyta einhverju. Ef verið er að stíga á tærnar á einhverjum og valda e.t.v. tjóni á hagsmunum þá má búast við andstöðu, jafnvel hörðum gagnaðgerðum í einhverjum tilvikum, opinskátt eða bakvið tjöldin. Fyrir góðan árangur til framtíðar er alltaf betra að aðilar græði á nýjunginni, eða a.m.k. tapi ekki, og því er ágætt að gá hvort ekki sé hægt að haga málum þannig, en þó innan ramma laga t.d. samkeppnislaga.
4. Þetta þýðir að sveigjanleiki er nauðsynlegur, og sjálfsagður, þegar þróun á sér stað enda er það bara ímyndunaraflið sem setur hugmyndunum mörk. Þetta þýðir að það er ekki til neitt sem heitir að hafa rétt eða rangt fyrir sér, og ekki ástæða til að verja hugmyndir af þrjósku útaf persónulegu stolti. En gangrýni á hugmyndir í þróun verður þá líka að vera sanngjörn og byggja á staðreyndum.
5. Stundum koma fram snilldarhugmyndir eins og þær hafi fallið úr bláum himni og ofan í kollinn á viðkomandi. Frá þeim punkti þarf að móta hugmyndina og laga hana að raunveruleikanum eins og lykil að skrá. En stundum er ekkert slíkt til staðar. Þá getur verið gott að skoða eitthvert vandamál sem er til staðar, og fara svo að leita að upplýsingum og gögnum hér og hvar, á bókasöfnum eða á hinu þægilega Google. Þegar maður uppgötvar eitthvað sem manni var ekki ljóst áður, þá kviknar oft innsæi og nýjar hugmyndir. Þessa aðferð er hugsanlega hægt að kalla „reverse engineering.“
6. Sveigjanleiki tengist leitinni að réttu lausninni. Það er ágætt að hafa í huga að þó maður fái góða fyrstu hugmynd um útfærslu og framkvæmdaleið, þá er oft hægt að ná kjarnanum í lokatakmarkinu á ýmsa aðra vegu. Kannski jafnvel einfaldar og ódýrar en fyrsta hugmyndin. Það er gott að spyrja „hver er kjarninn í því sem eftir er sótt?“ og velta svo við öllum steinum og vera opinn fyrir alls konar útfærsluleiðum. Þess vegna er nauðsynlegt að vera opinn gagnvart sínum eigin nýju hugmyndum um breytta útfærslu, sem og hugmyndum annarra. Aðrir hafa að vísu ekki alltaf víða sýn á allar hliðar málsins, en geta oft séð nýjar hliðar og haft þar á réttu að standa.
7. Þolinmæði er nauðsynleg enda tekur þetta oft lengri tíma en búist er við. Það má vel vera að til sé eitthvað sem heitir frábær hugdetta, snilldarhugmynd, en til að snilldin verði að veruleika sem virkar, þarf oftar en ekki að velta málinu fyrir sér frá mörgum hliðum, máta það við veruleikann og gera það vel og vandlega. „Snilld er 1% innblástur, 99% streð“ („Genius is one percent inspiration, ninety-nine percent perspiration.“ Þessi orð eru eignuð Thomas A. Edison sem m.a. fann upp ljósaperuna, símann, rafmagnsflutninga, forvera plötuspilarans og ýmislegt smálegt fleira).
8. Eitt sem er gott að muna er að það á ekki að búast við að ný og fersk hugmynd slái samstundis í gegn hjá meginþorra fólks. Raunverulega ný hugmynd þarf alltaf sinn tíma til að dreifa sér og koma sér fyrir í hugskoti fólks, þ.e. ef hugmyndin er góð og nær yfirhöfuð að komast gegnum allar síur. Ef hugmynd slær samstundis í gegn þýðir það að þetta er ekki ný og fersk hugmynd. Þetta tekur tíma og hefur ekkert með það að gera hvort nýjung er góð eða slæm. Þetta snýst um eðli fólks. Fólk er mis móttækilegt fyrir nýjungum á tilteknu sviði. Þú getur leitað að „adopter categories“ á Google ef þú ert forvitin/n að vita meira.
9. Ekki taka hlutum persónulega. Hugmynd er hugmynd. Útfærsla er útfærsla. Oft verður hugmynd útfærð af einhverjum öðrum hvort eð er, sem hafa rétt á að hafa sína sýn einnig. Þess vegna á ekki að tengja hugmynd við sig persónulega. Ekki verja hugmynd á slíkum forsendum, að það sé verið að móðga mann ef hún er gagnrýnd.
10. Rétt er að vera tilbúinn að leggja hugmynd til hliðar. Ef hugmynd er ekki nógu góð, á kannski eftir að þróa betur eða tíminn ekki réttur, þarf maður að vera tilbúinn að ýta henni til hliðar án tilfinningasemi. Þú ert líklega hugmyndaríkur einstaklingur hvort eð er og kemur kannski með eitthvað annað. Þegar undirritaður var að þróa Vatnajökulshugmyndir á sínum tíma var hann tilbúinn á hvaða augnabliki sem var að leggja þær til hliðar, ef sannfærandi betri hugmyndir kæmu fram. Það gerðist hins vegar aldrei, kannski vegna þess að þær voru mjög ítarlega unnar og byggðar á sannanlegum gögnum.
11. Kurteisi er æskilegri en æsingur eða yfirgangur, telur undirritaður, og ágætt að reyna að lesa í mannlega þætti, ekki síst ef hugmyndin rekst utaní fyrirliggjandi hagsmuni sem oft er, því heimurinn breytist ört. Það að maður setji mál fram af ýtrustu kurteisi kann maður að hugsa að þá muni aðrir kunna að meta þá kurteisi, en þetta þýðir ekki að aðrir hagsmunaaðilar hafi hugsað sér að vera jafn kurteisir.
12. Varkárni er mjög nauðsynleg. Þegar hugmynd eða tillaga er sett fram getur gerst að maður sé kominn beint inn á leikvöll þar sem hagsmunir takast á, og fólk sem skilur fyrst og fremst fjórða áfanga boðhlaups og hefur lítinn áhuga á fyrsta áfanga gæti valdið vandræðum.
13. Gerðu þér vel grein fyrir inn á hvaða vettvang þú ert að fara og hvaða þættir gætu haft áhrif þar, hvort sem það er á þjóðfélagslegum vettvangi eða í fyrirtækjaumhverfi. Óskastaðan er að allir séu jákvæðir og skoði tillögu með opnum hug og faglega. En það er ekki alltaf svo. Í öllum málum geta verið jákvæðir, hlutlausir, andstæðingar, en einnig aðilar með ósýnileg viðhorf, jákvæð eða neikvæð, sem skjóta upp kollinum síðar. Það er gott að hafa stuðningsaðila (mentor) en stundum geta verið aðilar sem líta út fyrir að vera mentorar en eru það ekki.
14. Ef þú hefur farið af stað með verkefni að eigin hvötum, og lendir í vandræðum, gerðu þá ráð fyrir það að hugsanlega muni e.t.v. enginn aðstoða þig, þó að þú hafir unnið mjög gott verk. Hér er svo margt mótað eftir flokkslínum og kunningsskap t.d., meðan að nýjar hugmyndir eru stundum án allra tenginga við hagsmunalínur sem hafa verið við líði lengi. Hefurðu unnið vel? Mörgum (miðað við gamlan hugsunarhátt) er nákvæmlega sama og dettur ekki í hug að þakka fyrir óeigingjarnt starf, hvað þá að hafa áhyggjur af þessu. Til að skilja krafta og hagsmunaátök sem eiga sér e.t.v. stað, ef þú ert í verulega stórum málum, getur verið ágætt að hafa grunn þekkingu á átakafræðum (strategic science). Til dæmis úr bókinni Marketing Warfare, sem byggir á von Clausewitz, ansi mögnuð. Slíkt getur forðað manni frá því að ana út í aðstæður þar sem varkárni og klókindi eru nauðsyn. Þetta tryggir mann þó ekki gegn vandræðum. Ef þú ert inni á stórum vettvangi er það ekkert „elsku mamma,“ sama þó þú sért sannfærð/ur um að hugmyndin sé frábær og ætti að gagnast öllum. Ekki er víst að allir sjái það. Þetta er sagt með velferð hugmyndasmiða í huga, en aðrir mega heyra einnig.
15. Ef þú hefur löngun til að láta af hendi rakna til að reyna að hjálpa í erfiðri stöðu er það mjög göfugmannleg afstaða. Fleiri mættu hafa þá afstöðu í samfélagi sem einkennist oft af eigingirni og græðgi. Gefðu þó aðeins það sem þú ert tilbúin/n að gefa algerlega án endurgjalds. Sumt fólk mun hrifsa til sín án hiks og ekki þakka fyrir. Vertu viðbúinn því. En ekki gefa þig alla/n (meðvirkni).
Þau sem eru í öðrum áfanga „boðhlaupsins,“ þ.e. leggja mat á hugmyndir til að ákveða af eða á, þurfa í sjálfu sér að hafa skilning á öllum þeim liðum sem taldir voru hér að framan, en frekar frá þeirri hlið að vega og meta það sem kemur frá fyrsta hluta. Þau þurfa líka að vera í aðstöðu til að líta kringum sig til að átta sig á hvernig farið er að í svipuðum málum, að vita hverja á að tala við til að fá skynsamlegt innlegg í málið, og svo framvegis. Þau þurfa eftir atvikum að hafa forgöngu um að kynna málið fyrir öðrum, jafnvel samfélaginu öllu. Markmiðið er að fá bestu niðurstöðuna. Stundum hefur fólk (smákóngar?) tilhneigingu til að liggja á upplýsingum eins og ormur á gulli, og halda ákvörðunum í reykfylltum bakherbergjum. Það þarf þá að athuga með opnum hug hvort það sé besta lausnin.
Það sama á við um þá sem eru í þriðja áfanganum. Hvað varðar þá í fjórða og síðasta áfanganum þá stendur upp á þá að standa vel að rekstrinum. Því hlutverki að leggja mat á frum tillögu er lokið.
Fólk sem stendur utan við „boðhlaupið“ eða 1-2-3-4 ferlið, skiptir einnig máli. Málið kann að snerta hagsmuni þess og daglegt líf, en þar sem það er ekki hluti af fyrrnefndu 1-2-3-4 ferli veit það stundum ekki jafn mikið um málið. Þessu fólki er því hættara við að detta í fordóma og sleggjudóma en þeim sem vita meira. Jafnvel er það stóryrt opinberlega eða í lokuðum hópi, og vill grípa til æsinga aðgerða gegn máli eða höfundi. Nauðsynlegt er að afla sér upplýsinga og fá dýpri skilning áður en það dæmir, enda gæti það verið í andstöðu við afar þarft mál. Með þekkingu í farteskinu getur það svo verið fylgjandi eða andstæðingar málsins eftir atvikum.
Hér eru viðbótar atriði sem þeir í 2., 3. og 4. hluta mega hafa til hliðsjónar, sem og þau sem fyrir utan standa einnig:
A. Umburðarlyndi og sveigjanleiki eru nauðsynleg, og það að gefa sér tíma til að kynna sér málið. Ef mönnum finnst að nýjung rekist utaní núverandi hagsmuni, sem getur reitt íslenska smákónga til reiði og hvatt til gagnaðgerða, er æskilegt að skoða þetta betur og gá hvort hægt sé að hnika málum til. Þetta er viðkvæmt, það er rétt, en oft er þetta hægt. Ef tillaga er sett fram á löglegan hátt, af kurteisi og virðingu á að leyfa viðkomandi að tala í samræmi við góða lýðræðisreglu og stjórnarskrá. Það að setja fram nýjar tillögur, að setja af stað fyrsta áfanga boðhlaups, er mjög mikilvægt ferli þó að ekki gangi allar hugmyndir upp, og ef passað er upp á það verður ávinningur samfélagsins margfaldur.
B. Umburðarlyndi, sem er ekki það sama og að samþykkja vitleysu umhugsunarlaust, tengist þeirri staðreynd að nýjar hugmyndir eru viðkvæmar og auðvelt að skjóta þær í kaf. Hugmynd í þróun er ekki tilbúin, ekki fullkomin, og því eru einhverjar hliðar sem ganga ekki upp. Vill maður horfa á með opnum hug, og styðja við að lausn finnist á hliðum sem eru ekki tilbúnar, eða vilja menn valta yfir málið vegna þess að það er ekki fullkomið? Þar getur skilið á milli að þróa verðmæta nýjung. Edison fann upp 10.000 leiðir um það hvernig ætti ekki að búa til ljósaperu, þar til hann fann eina leið til að búa til ljósaperu. Vonandi kalla fæst mál á svo langt ferli.
C. Sá eða sú sem tekur sér það fyrir hendur að þróa og setja fram nýja tillögu að verðmætri nýjung ber oftar en ekki engin skylda til að gera slíkt. Það getur gert kraftaverk að sýna smávegis liðleika og ræða saman um tillögurnar, eða jafnvel sýna örlítið þakklæti í orðum og viðmóti fyrir vel unnið verk. Þannig myndast hringflæði boðskipta í jákvæðum tón milli manneskja, sem getur bætt árangur.
D. Ágætt er að setja fram óskir um grunn fagmennsku og skýra framsetningu tillagna. Goðsagan um krotið aftan á servíettuna er líklega sjaldan rétt. Alvöru hugmyndir eru ekki settar þannig fram.
E. Ef einhver, sem er af eigin hvötum að kynna hugmynd með almenna skírskotun, fer mjög fljótlega að tala um kostnað, að það vanti pening í þetta og hitt, er ágætt að sýna smá varkárni. Að bollaleggja og þróa pælingu kostar gjarnan lítið til að byrja með. Ef viðkomandi er bara á eftir peningum gufar áhuginn fljótt upp, en ef viðkomandi hefur raunverulegan áhuga á málinu er gjarnan haldið áfram þó að peningar séu ekki farnir að streyma. Undirritaður er almennt á þeirri skoðun að Íslendingar séu dálítið fyrir að eyða meiri peningum en raunverulega er þörf á. Svo kemur oftast að því að fjármagns er þörf, og verðugur getur verkamaðurinn verið launa sinna. Með því að skoða kjarnann í málinu, í markmiðinu, og finna lausn sem uppfyllir kjarnann má einnig oft draga töluvert úr kostnaði, jafnvel mjög mikið.
F. Nú gæti einhverjum virst sem að þessi hugmynd um að vissir aðilar stígi fram og hefji fyrsta hluta einhvers „boðhlaups“ á einhverju sviði sem þeim hefur dottið í hug, sé heldur betur þægileg. Aðrir geti setið í makindum og tekið á móti leiðum til að skapa verðmætar nýjungar, og helst ekki þakkað fyrir eða launað á neinn hátt, með fjárhagsútgjöldum eða á annan veg. Ef sá sem þróar nýjungina komist í hann krappann vegna hugmynda sem hann eða hún setti fram öðrum til heilla, þá lyfti viðkomandi ekki litla fingri til að aðstoða jafnvel þó slíkt kosti ekki neitt. Þetta er hins vegar ekki skynsamleg nálgun fyrir samfélagið allt, þegar stóra myndin er skoðuð. Fyrrnefnd hugsun tilheyrir samfélagi sem hefur tekið við því besta erlendis frá, sem kemur hér sjálfkrafa án þess að þurfi að þakka fyrir eða launa á neinn hátt – samfélagi sem er að mestu í fjórða hluta „boðhlaups.“ Ef á að þróa nýjungar hérlendis þarf fólk að sjá þetta sem samfélagslega liðsheild, þar sem viðkomandi finna að framlag þeirra sé vel metið sem er persónulegur þáttur sem kostar ekkert, og jafnframt líta til með að fylgst sé með velferð sem leita að nýjum lausnum. Það verður að vera öruggt að þeir einstaklingar sem fara fram með nýjar tillögur munni, í grunninn, hvorki standa betur né verr eftir á. Það má ekki vera svo að aðeins þröngsýnir andstæðingar hugmyndar hafi á henni áhuga. Þá myndast varla andrúmsloft leiftrandi sköpunar, öflugra og víðtækara en hefur verið hér fram að þessu, sem nær að lyfta þessu samfélagi.
G. Hér kemur atriði sem skiptir máli víðar en bara þar sem ný tækifæri eru mótuð: Væri ekki ráð að Íslendingar myndu íhuga gildi þess að heiðarleiki verði raunverulega gert hátt undir höfði, og myndu grípa til aðgerða til að svo megi verða. Nú kippist kannski einhver við og segir að heiðarleiki sé Íslendingum í blóð borinn, en því miður er höfundur á þeirri skoðun að íslenskt samfélag og viðskiptalíf sé ekkert sérstaklega heiðarlegt, þar sem sviknir samningar af ýmsum toga eru of algeng. Fyrir mörgum virðist sem að það sé góð hugmynd að liðka fyrir hagnaði með slíku. Það er ekki flókið mál að búa til bissnessmódel sem „virkar“ ef það felur í sér að fá allskyns gæði hjá mótaðilanum sem síðan er ekki endurgoldið til baka. Svik og prettir, raunverulega. Svo er oft ótrúlegt að hlusta á gerendur í slíku, hvernig þeir koma sér undan að svara eða rökstyðja greiðlega hvers vegna þeir eigi eða geti ekki staðið við sitt, og að þeir séu í raun fórnarlömb á ýmsan hátt. Stundum eru þeir fórnarlömb eigin hroðvirkni, enda þarf sá aðili ekki að vanda sig sem ætlar ekki endilega að standa við sitt, eða að þeir eru fórnarlömb að einhverju leiti en hafa engan áhuga á að finna út hvort eða hvernig þeir geti staðið við sitt að einhverju leiti. Það virðist sem að smá óheiðarleiki sé skoðaður nokkuð mildum augum, og að það sé jafnvel hálf-viðurkennd leið til að auðgast. Jafnvel hefur höfundur á tilfinningunni að örlítil virðing sé borin fyrir aðilum sem vitað er að beittu fyrir sig ósanngirni í viðskiptum. Þannig er að borin er virðing fyrir peningunum, án tillits til aðferða sem beitt var.l Hinsvegar, þegar stóra myndin er skoðuð, grunar höfund að hálfsamþykktur skortur á heiðarleika geti lokað dyrum sem annars gætu verið opnaðar, að fólk fari síður af stað með góð mál vegna þess að alsiða sé að svindlað sé á fólki. Með trausti er fólk óhræddara til athafna. Þetta á sérstaklega við þegar verið er að þróa nýja hluti, en nýgræðingurinn er viðkvæmur meðan hann er rétt að byrja að spretta. Tökum sem dæmi sjávarútvegsstórveldið Samherja. Í upphafi voru þetta þrír ungir menn sem voru að kaupa ryðgaðan togara og gera upp. Ef einhver hefði svindlað duglega á þeim þar í blábyrjuninni er vel hugsanlegt að þeir hefðu farið útaf sporinu og sprotinn hefði ekki náð að vaxa og verða stöndugt tré. Höfund grunar að smásvindl ýmiskonar, og frjálsleg umgengni við sannleikann, sé algengari hér en til dæmis í skandinavísku löndunum og Þýskalandi. Kennitöluflakk (má segja kennitöluflikkflakk?) er dæmi um það. Ef menn hafa á tilfinningunni að allir (eða margir) séu að svindla á öllum (ok… þetta er ýkt) þá er það hugsanlega þáttur sem heldur málum í samfélaginu áfram frosnum. Baráttan um hin efnislegu gæði eru auðvitað eitt megin þemað í menningu mannsins og margt misjafnt, sem og gott sem þar hefur komið upp. En reynum að sýna af okkur orðheldni, traust og að standa við það sem maður lofar, jafnvel þó að það kunni að virðast óæskilegt umstang stundum, í huga sumra. Samfélagið er auðvitað að gera slík mál upp í kjölfar hrunsins. En höfundur hefur ekki séð verulega hreyfingu í þá átt að raunverulega breyta afstöðu og aðgerðum hér. (Með þessu er ekki verið að hnýta í fólk sem hefur stundað rekstur með heiðarlegum hætti, en farið í þrot af ástæðum sem erfitt var að fást við.)
Þetta er ekki fullkomin upptalning og ef til vill getur þú, lesandi, bætt einhverju við?
Bakgrunnur þessarar nálgunar
Þessi sýn, á sköpun verðæta sem „boðhlaup“, eða sem 1-2-3-4 ferli, er ekki fengin í einhverjum fræðiritum, heldur er hugdetta höfundar til að lýsa megin einkennum þessa ferlis með skýrum hætti. Vel má vera að svipuð lýsing sé notuð af öðrum til að útskýra mismunandi hluta í þessu ferli, verkefni og fólkið þar, en höfundur kannast ekki við það.
Reynsla af stóru máli sem höfundur vann í um áraraðir veitti innblástur fyrir þeim athugunum og ráðleggingum sem koma fram í þessu riti. Áður en málið er nefnt er rétt að útskýra nokkur atriði:
Vinnan höfundar var í fyrsta hluta þess „boðhlaups,“ þess máls. Söguleg gögn benda eindregið til þess að höfundur hafi byrjað þetta „boðhlaup“ og fundið það upp. Þetta er því reynsla frá fyrstu hendi, alveg frá blá-byrjun. Þetta var umfangsmikil þróunarvinna sem teygði sig yfir sex ár, og lauk þegar Alþingi hafði samþykkt mál þess eðlis sem undirritaður hafði talað fyrir, einn manna lengst af. Hér skiptir máli að benda á er hve mikil og nákvæm vinna var lögð í þetta, en það að leggja mikið í þróun eykur að jafnaði líkur á að dæmið gangi upp. Nálega 1.000 klukkutímar fóru líklega í þetta, launalaust. En það virðist borga sig, ef opinberar áætlanir reynast réttar, því opinberir aðilar hafa áætlað margra milljarða króna aukningu á gjaldeyristekjum vegna þessa, sem svo margfaldast í efnahagslífi gegnum svonefnd margfeldisáhrif (multiplier). Fjölmörg störf geta skapast með tímanum. Tilgangur þessa rits er að útlista hvernig hægt sé að endurtaka svona ferli á mörgum mögulegum sviðum, með því að segja frá strategískum forsendum, og hvernig undirbúningsvinnan var unnin. Það er eftir einhverju að slægjast með því að byrja fyrsta hluta „boðhlaups“ sem lofar góðu.
Verkefni höfundar á sínum tíma hafði þann tilgang að styrkja stöðu atvinnuvega á austurhluta landsins. Þetta voru markaðshugmyndir, og örugglega fyrsta stóra markaðshugmyndin sem sett var fram hér á landi á þessu sviði, náttúruverndar og sköpunar útivistarsvæða. Þess vegna er höfundur einkar sáttur við spár um tekjur.
Verkefnið fól líklega í sér umfangsmestu þróun hugmynda sem einstaklingur hefur lagt í hér, að eigin frumkvæði, sem hefur það að markmiði að finna leiðir til þess að stóriðja og orkugeiri getið lifað í sæmilegri sátt við náttúruvernd. Sú nálgun var gerólík því sem flestir eða allir náttúruverndarsinnar höfðu eins og kunnugt er. Alls voru það níu titlar á árunum 1995-2005.
Verkefnið er hugsanlega verðmætasta þróunarverkefni sem einstaklingur hefur unnið, að eigin frumkvæði og launalaust í sjálfboðavinnu, og síðan afhent stjórnvöldum, í sögunni.
Mikið hefur verið skrafað og skeggrætt um útrásartímann og hina svokölluðu víkinga. Höfundur telur að þeir hafi verið afsprengi íslensks samfélags, og að ágætt væri fyrir Íslendinga að horfast í augu við sjálfa sig, þó það sé ekki jafn þægilegt (og upplífgandi) eins og að gagnrýna þá og gera þá ábyrga fyrir öllu saman. Vissulega gerðu þeir margt rangt, en engu að síður má spyrja hvort það séu ekki viss grundvallar nálgun í íslensku samfélagi sem sé meðal þess sem þessir menn voru sprottnir upp úr? Dæmið ekki svo þér verðið ekki dæmdir. Undirritaður meinar ekki að Íslendingar eigi að rífa sig meira niður en orðið er, heldur að byggja upp eitthvað aðeins betra. Undirritaður ætlar ekki að setja sig á háan hest (það er ekki leyfilegt í íslenskum kúltúr) en það eru nokkur fagleg atriði varðandi hvernig verkefni var unnið: Það var alger virðing fyrir staðreyndum og ekkert sett fram nema hægt væri að styðja það sannanlegum staðreyndum. Það var leitast við að þróa málið þannig að það félli að öllum hugsanlegum hagsmunahópum, þannig að enginn þeirra hefði samstundis ástæðu til að vera málinu mótfallinn. Það var lögð áhersla á mikla kurteisi, og hvergi hallað á neinn. Persónulegar skoðanir höfundar skiptu engu, það var bara miðað við röksemdir og staðreyndir. Það var áhersla lögð á hagkvæmni og hagsýni í hugmyndunum, og jarðtengd rök. Það var hvergi reynt að blekkja eða „sjarmera“ fólk með lymskulegum ráðum. Nú getur lesandi velt fyrir sér hvort það var einhver munur á þessu og sumu því sem útrásarvíkingar lögðu stund á. Má eitthvað læra af þessari grunn nálgun?
Málið sem hér um ræðir er Vatnajökulsþjóðgarður, en í yfirlit málsins má sjá að fyrsti hluti „boðhlaups“ sem nokkuð ljóslega varð að þjóðgarðinum byrjaði haustið 1992. Hugmyndin var þróuð í grunninn á árunum 1993 og 1994, og svo kynnt á árunum 1995 til 1998, en var allan tímann í þróun. Hver var þáttur höfundar í því “boðhlaupi”? Best er að skoða sögulegar staðreyndir málsins. Þær er að finna á vefsíðunni www.seevatnajokull.com/bok, en á þeirri síðu má nálgast bókina “Skrefin að Vatnajökulsþjógarði” sem var gefin út af höfundi. Bókin er í PDF formi, 282 blaðsíður, og á að hafa að geyma svo gott sem öll skrif og umræðu, og alla atburðarás, allra aðila sem tjáðu sig um hugsanlega friðun Vatnajökuls sem fram fór á Íslandi á árunum 1992 til 1999.Þar er einnig stutt yfirlit sögunnar. Þar er einnig að finna myndskeið þar sem höfundur ræðið um málið. Einnig skal bent á vefinn www.sverrir.info, sem höfundur hefur haldið úti frá árinu 2000, en hefur aðeins að geyma þann þátt sem snýra að vinnu höfundar. (Umfjöllun um þessa vinnu, sem var að finna hér á vefnum uppbygging.org hefur verið tekin út hér, og er umfjöllun um vinnu að hugmyndum vegna Vatnajökuls nú aðeins að finna á þessum umræddu vefjum).
Þessi vinna var bakgrunnur höfundar að þeirri þróun pælinga sem birtast hér á vefnum Uppbygging.
Hentar þetta öllum?
Henta þessar pælingar hér öllum? Þessi boðhlaups nálgun til að útskýra hvernig hlutir hanga saman og raða sér upp? Alveg eins og að fólk velur sér áhugamál að eigin smekk og upplagi, eins og listinn hér að ofan; golf, matreiðsla, fótbolti, handbolti, fimleikar, skák og fleira ber með sér, hefur fólk mismunandi nálgun, og finnst best að brjóta mál til mergjar og vinna á mismunandi hátt!
Höfundur er hins vegar viss um að þessi nálgun sem er sett fram hér geti höfðað til margra og geti jafnvel leyst úr einhverri flækju, gefið leysi-skarpa sjón á eitthvað mál sem hafði ekki tekist að varpa nógu skýru ljósi á.
Ef lesandi finnur sig ekki í þessu er viðkomandi beðinn um að sýna umburðarlyndi. Kannski ertu skákáhugamaður með lítinn áhuga á matreiðslu eða fimleikum? Eða öfugt? Jafnvel geturðu sjálf/ur birt þínar formúlur, sem þú telur að þeir sem hugsa eins og þú geti nýtt sér? Vertu velkomin/n!
Að horfa í eigin barm
Hvað brást á útrásartímanum sem leiddi til hrunsins? Þessarar spurningar hefur margoft verið spurt og bent á svör hér og þar, hjá hinum og þessum. En getur verið að þjóðin þurfið að horfast hreinskilnislega í augu við að bakvið það allt er grunnurinn sá, að íslenska þjóðin í heild sinni brást? Íslenska þjóðin brást sjálfri sér, með því að trúa hlutum sem ekki voru forsendur fyrir að trúa, með því að skoða hlutina ekki nógu vel og rétt? Að vísu voru sumir spilandi stöður á leikvellinum meðan á því stóð, en aðrir sátu á áhorfendabekkjum og voru sammála mjög hvort sem þeir/þær höfðu vit á málum eða ekki. Á þessum tíma voru örfáir sem viðruðu gagnrýni opinberlega. Ef það er rétt er ekkert annað að gera, ef menn vilja raunverulega betri árangur, að fara að skoða nálganir og aðferðir heiðarlega og af fagmennsku, án þess að fara að dæma neinn, nema sjálfa(n) sig á einn og annan hátt. „Hvernig get ég styrkt mig? Hvernig get ég staðið mig betur?“ Í stað þess að leggja sífellt áherslu á að benda og dæma aðra. (Með þessu er ekki sagt að réttvísin, skilgreind af dómskerfinu, eigi ekki að ná fram að ganga, þetta er spurning um heildarnálgun.) Þessi skrif eru tilraun til þess að gera slíkt.
Viltu koma þessu áfram?
Nú er kominn tími til að þakka þér, lesandi góður, fyrir að vera að lesa þessi orð, sem líklega þýðir að þú hefur lesið allt hér á undan. Gott mál. Þetta er nokkuð langur texti, en viðfangsefnið er líka stórt. Höfundur er ekki sannfærður um að langtímahorfur Íslands séu mjög góðar, sjálfkrafa að mestu, án þess að sérlega mikið sé á sig lagt. Það eru nokkur atriði sem eru lúmsk og gætu komið aftan að þjóðinni. Þess vegna er mikilvægt að efla sem mest starf í þá átt að finna ný tækifæri og byggja þau upp. Til þess væri gott að koma þessum pælingum hér, og öðrum svipuðum ef og þegar þær koma fram vonandi, til sem flestra. Ef þér líkar við þær hugmyndir sem hér hafa verið settar fram máttu gjarnan láta aðra vita. Þú getur sagt frá, bloggað um þetta, skrifað um þetta í athugasemdum, smellt á Like hnappinn, skrifað á Facebook. Hvaðeina. Leifa þessu að dreifast. Finna sér skjól.
Það má nefnilega búast við að ekki sérlega mörg lesi þetta allt í upphafi. Hve mörg? Það er ekki gott að segja. 20 manns? 50 manns? 200 manns? Skrif höfundar hafa yfirleitt ekki haft marga lesendur, en á meðal þeirra sem lásu hafa verið þungaviktaraðilar sem hafa leitt málið áfram. Þannig virðist sem að hugmyndir höfundar hafi komist lengra en margra sem góla hátt á torgum. Höfundur hefur í fáein skiptir verið að fást við hluti, talsvert langt á undan öðrum. Hann var til dæmis einn í nokkur ár að tala um Vatnajökul. (Maður þurfti að vera dálítill ísbrjótur, eiginlega í þrennum skilningi). Það er kallað að vera á undan sinni samtíð. Það er ekki endilega skemmtilegra. Til dæmis er lítil peningavelta á þeim stað. En það er gaman að fást við eitthvað sem er ferskt og nýtt.
Þessi skrif eru útbúin í sjálfboðavinnu án styrkja. Höfundur er hlutlaus og ekki undir áhrifum neinna hagsmunahópa. Tilgangurinn er aðeins sá að koma þessum pælingum á framfæri. Undirrituðum fannst vera farið að vanta svona rödd, og að hann gæti ef til vill varpað ljósi einhvern hluta af málinu. Þessi skrif eru líklega ekki fullkomin og verða kannski löguð eitthvað ef ástæða er til, en annars er vonað að fólk taki viljann fyrir verkið. Það er síðan undir fólki komið hvort það gerir eitthvað meira í þessa átt. Það er vonandi. Líklega eru þessi skrif lokin hjá höfundi af svona pælingum í sjálfboðaliðavinnu, en þetta hefur staðið yfir í nítján ár og undirritaður hefur svosem ekki orðið ríkur af. Nema reynslunni ríkari, og sú reynsla hefur verið bæði góð og slæm. Vatnajökulsskrifin byggðu á rökleiðslu sem var vonandi skynsamleg, og staðreyndum og engu öðru, en ekki persónulegu „karisma“ eða áhrifum. Það sama á við hér.
Ef þessi skrif hér verða síðar talin vera á topp tíu listanum yfir bestu hugvekjur þar sem reynt var að draga þessa þjóð af stað úr sinni svekkelsis-úlfakreppu, þá gæti það þýtt að níu pælingar hefðu talist betri en þessi hér. Það væri fínt og ástæða til að hvetja fólk til að leggja orð í belg ef það hefur hugsað sitt vel og telur sig hafa eitthvað fram að færa. Það gæti verið í öðrum stíl sem myndi henta öðrum. Höfundur hefur ekki tekið eftir mörgum svona hugvekjum innan um hinn algenga umræðuklið. Mættu þær ekki vera fleiri? Ef lesandinn telur sig vita betur um eitthvað er ástæða til að hvetja viðkomandi til að setja slíkt fram. Það er á hreinu að þessi mál má skoða frá mörgum hliðum.
Að lokum er málið að snúa sér að jákvæðninni. Á Íslandi eiga allir að vera svo hressir alltaf. Því er ekki úr vegi að láta lokaorðin vera:
Guð hressi við Ísland!
Klárað að mestu á fullveldisdaginn 1. desember 2011
Sverrir Sv. Sigurðarson
Viðskiptafræðingur Cand. Oecon.
Síður á vefnum:
- Home
- Útdráttur úr textunum – Fljót lesning
- Uppbygging … er næsta skrefið
- Myndskeið
- Tenglar
- Uppbygging … er næsta skrefið – löng útgáfa