Útdráttur úr textunum – Fljót lesning

mynd-jokull-forsida-2-300x159Umfjöllun um sköpun nýjunga, nýsköpun, með líkingu við boðhlaup, er megin efni þessa vefjar Uppbygging.org. 

Þessi síða hefur að geyma stuttan útdrátt úr löngu hugleiðingunum á vefnum, auk viðbótar á milli bollalegginga um tengingu þeirra við ástandi hér á Íslandi þessa stundina, árið 2013, fimm árum eftir bankahrun.

 

====================================================================

hjol-72-f-vef

Uppbygging … er næsta skrefið

Stutt útgáfa hugleiðinga um sköpun nýjunga út frá myndlíkingu um “boðhlaup”

 

Ísland getur átt ágæta framtíð, með góðum lífsgæðum eins og voru hér á síðustu áratugum. En Íslendingar geta líka klúðrað sínum málum að miklu leiti til langs tíma, í áratugi. Það sem skilur á milli þessa byggir ekki aðeins á tilviljunum sem ekki er hægt að höndla, heldur að stóru leiti á því hvaða aðferðum, hvaða nálgunum, Íslendingar beita til að byggja upp sitt samfélag.

Á síðustu þremur árum hefur íslenskt samfélag verið í greipum þeirra vandræða sem urðu við hrun fjármálakerfisins. Nú er gott að spyrja sig, því allt hefur sinn tíma, hvort ekki sé orðið tímabært að leita nýrra tækifæra, til uppbyggingar á ný, til að skapa ný verðmæti og það sem er mikilvægast ný störf, í stað þess að umræðan í samfélaginu sé mestanpart undir sterkum áhrifum af neikvæðni, sakbendingum og því að velta sér upp úr því sem misfórst? Gallinn er sá að það er hugsanlegt að þessi andi neikvæðni muni eflast frekar en minnka, ef margar ákærur verða gefnar út vegna hrunsins og réttarhöld dragast á langinn, jafnvel um mörg ár. Það er vert að spyrja hvort það sé ekki góður fjöldi einstaklinga sem vill fara að efla skipulega meira uppbyggjandi umræðu og leit að jákvæðri gagnsókn. Höfundur hefur mikið velt fyrir sér stöðu þessa lands og þróun, sem þó kemur ekki allt fram hér, og telur að staða þjóðarinnar geti e.t.v verið óvissari en þjóðin sjálf áttar sig á. Frasinn „innovate or die“ hefur verið eignaður ýmsum*, og sá frasi getur mjög vel átt við Íslendinga. Það getur verið lífsspursmál fyrir Íslendinga að snúa sér að þróun og uppbyggingu, og snúa sér aðeins um leið frá neikvæðninni. Þó er hugsanlegt að það verði ekki sama fólkið sem sinnir hvoru um sig. Er hægt að fullyrða að mistök verði ekki aftur gerð á Íslandi? Varla. Jákvæð skoðun á aðferðum er því eitt af því sem Íslendingar þurfa. Sá andi uppbyggingar og sigurvilja má ekki aðeins vera í formi jákvæðra slagorða byggðu á skilyrðislausu sjálfstrausti, heldur á vel hugsuðum aðferðum og nálgunum, þar sem ætlunin er að gera betur en síðast. Það brýtur ekki niður einstaklinga, heldur byggir upp. Íslendingar hafa verið í „sjokki“ vegna hrunsins. Allar þjóðir komast einhverntímann í hann krappann. Það verður að læra, og halda áfram. Margar þjóðir hafa gert það, og Íslendingar geta líka komið sér úr þessari úlfakreppu og sótt fram.

Hvaða leiðir eru sjáanlegar sem Íslendingar geta farið – allar leiðir – áður en þær eru metnar nánar? Grunn leiðirnar gætu í það minnsta verið þessar:

1. Íslendingar geta haldið áfram á óbreyttri braut, með óbreyttri umræðu, og vonað að ef það sem úrskeiðis fór er gagnrýnt nógu kappsamlega þá hverfi það og eitthvað gott komi sjálfkrafa í staðinn.

2. Íslendingar geta treyst á að heppni færi þeim velmegun á ný.

3. Hægt er að fara í frekari hagræðingu og niðurskurð til að skapa rétt hlutföll tekna og útgjalda.

4. Hægt er að bíða eftir því að tækni- og vörunýjungar komi fram erlendis sem nýtast hér.

5. Draumurinn um að erlendir fjárfestar með markmið um að gera Íslendinga ríka komi hingað.

6. Væri er til vill hægt að fá erlend lán í miklu magni til að setja starfsemi af stað?

7. Það er reyndar til mikið fjármagn á Íslandi nú sem nýtist ekki til að knýja áfram atvinnustarfsemi, er hægt að finna nálgun þar til að koma því „í vinnu“?

8. Íslendingar gætu snúið sér að því af meiri krafti, að þróa nýjungar, og setja af stað verðmæta starfsemi, byggt á eigin sköpunarkrafti og útsjónarsemi. Það getur verið stórt eða smátt í upphafi, á ýmsum sviðum. Málið er að það geta verið hugdettur og sérstök innsýn í mörgum hornum samfélagsins, sem nær ekki að brjótast upp úr moldinni ef svo má segja og vaxa upp til að verða stórar og stæltar plöntur sem bera ávöxt, meðal annars vegna hins neikvæða andrúmslofts sem gerir fólk smeykt og tortryggið út í nýjar hugmyndir, auk athafnahræðslu sem getur verið afleiðing af salíbunum síðustu ára. Á Íslandi er stundum talað um grunn atvinnuvegi og auðlindir, en við þekkjum líka fyrirtæki sem eru á algerlega ólíkum sviðum, og eru byggð á hugrekki, útsjónarsemi og sköpunargáfu þeirra sem að stóðu. Er mikilvægasta auðlindin ekki hugurinn sjálfur?

Ef þessir valkostir 1.-8. eru skoðaðir er ekki erfitt að komast að niðurstöðu um, að áttundi liðurinn, að Íslendingar fari sjálfir, að leita að og þróa ný tækifæri af endurnýjuðum krafti, er ein af fáum sem eru raunhæfar. En ný hugmynd er alls ekki sjálfkrafa trygging fyrir góðum árangri, og framkvæmd á nýju tækifæri getur verið vel eða illa unnin. Miklu máli skiptir að nálgast þetta betur en á útrásartímanum. Að öllu jöfnu er það mikilvægt í hverju samfélagi, en nú við okkar aðstæður er það lífsnauðsynlegt. Skoðum það nánar málefnalega.

Allar nýjungar, allt sem menn hafa einhverntímann búið til og er orðið hluti af mannlegri tilveru (þar með talið hjólið sem ekki er hægt að finna upp aftur) má segja að séu í grunninn tilkomnar vegna þess að einhver, einhversstaðar kom auga á möguleika og hugsaði „hei, kannski væri hægt að…“ Nýsköpun má sjá frá ýmsum hliðum, en ein nálgunin sem er sett fram á vefnum uppbygging.org. Það getur verið ágætt að skoða slíkar nálganir til að átta sig betur á eðli verkefnis, eins og lið í hópíþrótt liggur yfir pælingum um leikskipulag. Hér er sett fram þessi nálgun að öll nýsköpun fari alltaf gegnum fjóra hluta, hver á eftir öðrum eins og í boðhlaupi, þar sem fyrsti aðilinn býr til „keflið“ má segja, sem þýðir að hann hugsar upp boðhlaupið í grunninn. Hann eða hún (eða þau) „hleypur“ með það „fyrsta hlutann“ og afhendir þeim sem „hleypur“ annan hlutann, og svo áfram þriðji hlutinn og loks sá fjórði. Í sumum verkefnum getur sami aðilinn gert þetta allt, en í stærri verkefnum geta ólíkir aðilar eða teymi séð um hvern hluta. Fyrsti hlutinn felur í sér augnablikið „hei, kannski væri hægt að…“, ásamt því að frekari gögnum er safnað, röksemd þróuð og hugmyndin verður að fullbúinni tillögu. Annar hlutinn felur í sér að skoða tillöguna (í raunheimum eru þetta t.d. stjórnmálamenn eða æðstu stjórnendur fyrirtækja), og síðan að ákveða hvort eigi að gera hana að veruleika, eða ekki. Ef ákveðið er að framkvæma er þriðji hlutinn í höndum þeirra sem annar hlutinn hefur falið að ákveða endanlega útfærslu, skipuleggja, og vinna allan undirbúning í samræmi við þarfir verksins, fjármagn til reiðu og slíkt. Fjórði hlutinn sér svo um raunverulega framkvæmd og rekstur þessa nýja fyrirbæris eins lengi og það verður starfrækt. Þetta eru ekki flókin vísindi en ágætt að hafa í huga til að fá skarpa sýn á verkefni. Allir hlutarnireru mikilvægir og ekki hægt að gera afgerandi upp á milli, þó sjálf framkvæmdin, fjórði hlutinn sé verulega mikilvægur. Hins vegar er það staðreynd að ef fyrsti hluti fer ekki af stað þá fara verða hinir hlutarnir ekki að veruleika heldur. Í fyrsta hlutanum er grunn arkitektinn að hinni verðmætu nýjung að verki. Þar er upphafið.

Höfundur þessa texta hefur talsverða reynslu af því að þróa stóra og mjög verðmæta tillögu – verk sem er staðsett í fyrsta hluta „boðhlaups“ – og vill koma nokkrum athugasemdum á framfæri. Það þarf ekki að særa neinn að taka fram, að þegar grannt er skoðað er ekki sérlega margt sem tæknimenning okkar byggir á, sem er í grunninn þróað og fundið upp á Íslandi, (fyrsti hluti „boðhlaups“.) Margt hér er komið erlendis frá og tekið upp sjálfkrafa, sem þýðir að margir gætu að ósekju fengið sterkari tilfinningu fyrir því ferli sem felur í sér að þróa verðmæta nýjung frá grunni.

Í megin textanum „Uppbygging … er næsta skrefið“ á vefnum www.uppbygging.org er að finna uppástungur um hvað þeir einstaklingar megi hafa í huga þegar ný tillaga að verðmætum nýjungum er þróuð. Einnig er fjallað um hvað þeir megi athuga sem taka við hugmyndum og vinna þær í gegnum mats, skipulags og framkvæmdahlutana. Auk þess eru orð til þeirra sem standa utan við þetta allt en geta engu að síður haft áhrif til góðs eða ills. Þarna eru meðal annars atriði sem undirritaður, og líklega fleiri, telur að Íslendingar hafi ekki lagt þunga áherslu á á útrásartímanum, en eru afar mikilvæg. Í stuttu máli (langi textinn er mun betur upplýsandi) felur þetta í sér:

Þeir einstaklingar sem vilja þróa nýjung þurfa að halda sig við staðreyndir og aftur staðreyndir, en reyna ekki að beita blekkingum því raunveruleikinn sjálfur mun aldrei virða slíkt, þó hægt sé að blekkja fólk í ákveðinn tíma. Leggja þarf áherslu á góðan, jarðbundinn og öfgalausan rökstuðning, og jafnframt að reyna að sneiða hjá andstöðu. Þolinmæði þrautir vinnur flestar, því oft taka hlutir lengri tíma en maður heldur. Staðreyndin er sú að hugmynd, sem er raunverulega ný, slær sem regla aðeins í gegn hjá takmörkuðum hluta fjöldans í upphafi. Hugmynd er hugmynd og það er venjulega hægt að ná markmiðum á margan hátt, sem kallar á sveigjanleika í hugsun. Ekki er gott að taka hugmyndum persónulega og verja þær þannig. Ef hugmynd gengur ekki upp á tvímælalaust að leggja hana til hliðar. Kannski fær maður aðra betri eða finnur leið til að blása lífi í hana síðar. Æskilegt er að sýna öllum kurteisi , og um leið þarf að sýna varkárni því að ný hugmynd getur jafnvel vakið upp neikvæð eða fjandsamleg viðbrögð. Maður þarf að kynna sér vettvanginn, hópa og hagsmuni. Maður gæti staðið uppi einn án stuðnings. Þess vegna er rétt að vinna að nýrri hugmynd í góðu jafnvægi og gefa ekki meira af sér en raunhæft er að maður geti gefið, ef laun verða engin.

Einstaklingar í öðrum hluta „boðhlaupsins“ þurfa í raun að skoða sömu atriði, en þó út frá þeirri stöðu að þau eru að skoða og meta hugmynd, en ekki að þróa hana. Opin skoðanaskipti eru oft æskilegust, í stað þess að smákóngar liggi á upplýsingum eins og ormar á gulli. Minnst er stuttlega á einstaklinga í þriðja og fjórða hluta „boðhlaupsins“ í langa textanum, og jafnframt tæpt á þeim sem standa utan við þetta allt. Þeir einstaklingar vita oft minna en þeir sem eru í ferlinu sjálfu, til að byrja með, og þurfa að temja sér víðsýni og þolinmæði, og afla sér upplýsinga frekar en að móta afstöðu of fljótt út frá lélegum upplýsingum.

Þessu til viðbótar eru svo talin upp nokkur viðbótaratriði, til dæmis um umburðarlyndi, stuðning, heiðarleika og óheiðarleika, og slíkt. Þetta er verkefni þróaðs nútímasamfélags að vinna að.

Þetta er í stuttu máli efni „Uppbygging … er hún ekki næsta skrefið?“ Bakgrunnurinn að þessum skrifum undirritaðs hér á vefnum uppbygging.org er vinna sem unnin var af höfundi síðustu 19 árin. Þar var höfundur fyrst að vinna að þróun hugmyndar í sex ár, mjög málefnalega og hlutlaust, sem hafði það að markmiði að skapa störf. Þetta var fyrsti hluti „boðhlaups“ í því máli. Framanaf var undirritaður einn um að fjalla um slíkan möguleika, en á endanum kom fram tillaga frá öðrum sem náði ekki fram að ganga, og var langtum minni að vöxtum en viðamikið heildarverk undirritaðs. Hugmyndirnar sneru að friðlýsingu Vatnajökuls og nágrennis í eitt stórt friðað svæði eða þjóðgarð, og er í dag til sem Vatnajökulsþjóðgarður. Síðar, á árunum 2002-2011 setti höfundur fram ýmsar athuganir. Vel er hugsanlegt að einhverjar þeirra hafi haft áhrif, meðan að aðrar vöktu minni athygli. Um þennan fyrsta hluta boðhlaups í þessu máli verður fjallað nánar hér á vefnum uppbygging.org, út frá „boðhlaups“ hugmyndinni, en auk þess er hægt að skoða allt verk undirritaðs frá 1992 til 2011 á vefnum www.sverrir.info.

Þessar athuganir hér eru óháðar pólitískum flokkum og hagsmunaaðilum, og eiga að vera viðeigandi fyrir hvaða svið atvinnu- og opinbers lífs sem er.

Höfundur vonar að þeim verði tekið með opnum huga og umburðarlyndi, þó gengið sé býsna ákveðið til verks að benda á hluti sem mætti breyta. Ef aðrir geta bætt við frá sínu sjónarhorni, uppástungum og ráðleggingum fyrir það markmið, að þróa og skapa ný verðmæti, þá er það mjög gott mál ,enda er fólk ólíkt og pælingar frá annarri hlið gætu hentað sumum. Mikil ástæða er að hvetja til þess. Höfundur hefur ekki séð mikið af hugleiðingum fram að þessu í þessum anda, en jafnvel allnokkru fleiri sjónarhorn á þetta myndu áfram verða litlar í magni í samanburði við allar neikvæðar færslur á bloggum og í athugasemdum, ásökunum og sakbendingum sem hafa streymt fram í netheimum, og hafa viðhaldið neikvæðu eða vonlitlu hugarfari of lengi. Bankahrunið var slæmt og von að fólk sé í sjokki, en er ekki mál að linni.

Það er hægt að efla krafta uppbyggingar, en það er ómögulegt að segja hvar og hvernig. Sköpunarkrafturinn fer oft eftir órannsakanlegum leiðum og stundum er líkt og töfrar séu að verki. Úr þessum töfrum þarf svo að vinna með rökréttum hætti eins og reynt er að lýsa hér á undan. Býrð þú yfir töfrahugmynd? Ekki hika við að taka fyrstu skrefin að því að gera hana að veruleika, en stígðu varlega til jarðar um leið, og það er aldrei að vita hvernig gull er í kistlinum við enda þess regnboga.

Ítarlegar er farið í þessi atriði í óstyttri útgáfu Uppbygging … er næsta skrefið.

Mælt er með að lesa hana ef áhugi er á að kynna sér þessar hugleiðingar vel, enda eru mikilvægu smáatriðin þar.

WP Facebook Like Send & Open Graph Meta powered by TutsKid.com.